Hraust Atvinnulíf- fjölbreyttir atvinnuvegir- Atvinnustefna og stuðningur við ferðaþjónustu

Áherslumál okkar S-lista fólks fyrir komandi kosningar leggjum við fram undir kjörorðinu „Hraust Samfélag“.  Samfélag þar sem jafnrétti, jafnt aðgengi og möguleikar til leiks og starfa fara ekki eftir efnahag eða fjölskylduaðstæðum heldur standi samfélagið vörð um að allir ungir sem aldnir hafa fjölbreytt og góð tækifæri til að vaxa og þroskast. Fjölbreytt atvinnulíf skipar stóran sess í okkar áherslum og við erum á góðum stað í dag þó að alltaf megi bæta. Hér er sjávarútvegur, stóriðnaður nýkominn, ræktun á grænmeti, landbúnaður og ekki síst er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein. Aðaláherslumál okkar í þessum málaflokki eru eftirfarandi.

Finna leiðir til að styðja við ferðaþjónustuna og mörkum fastmótaðri atvinnustefnu. Undanfarin ár hefur Norðuþing fest sig í sessi sem ferðaþjónustusvæði. Samkeppnin um hvern ferðamenn hefur þó harðnað því fjölgun ferðamanna sem hefur verið gríðarleg undanfarin ár er að minnka. Það er misjafnt eftir svæðum í sveitarfélaginu hvernig ferðaþjónustan stendur en öll svæðin eiga það þó sammerkt að í dag þarf að sækja fram með áðurnefnda þætti í huga.

Enn er mikið af ferðamönnum í heiminum og þeim fer í heild fjölgandi og því af miklu að taka. Á svæðinu eru tvö ferðamálasamtök og er Norðurþing einnig aðili að Markaðsstofu Norðurlands. Mikil vinna hefur verið unnin í að greina hvernig ferðamenn hagsmunaðilar vilja á svæðið og í raun er þokkaleg samstaða um hvernig ferðaþjónustusvæði við viljum vera. Það er mismunandi eftir svæðum hvernig áherslan er og því mikilvægt að gera sér grein fyrir því að markaðssetning verður ekki eins fyrir það allt.

Við viljum sjá eflingu Húsavíkurstofu með starfsmanni og um leið styrkja samstarfið við Norðurhjara og þannig ná samfellu um allt svæðið. Sá starfsmaður þyrfti að sinna þeim verkefnum sem nú þegar eru í gangi í markaðssetningu eins og til dæmis Arctic Coast Way og Fuglastígur en um leið að marka stefnu fyrir Húsavík og sækja í ferðamenn erlendis og innlendis sem falla að þeirri stefnu. Þessu tengt ætlum við að setja 10 milljónir í uppbyggingu tjaldsvæða á Kópaskeri og Raufarhöfn en þau skipa stóran sess í ferðaþjónustu austan við Húsavík.

Fyrir utan þessa vinnu þarf Norðurþing að marka sér atvinnustefnu í öllum helstu atvinnuvegum og vinna markvisst að þeirri stefnu. Við megum ekki missa niður það sem hefur áunnist og S-listi ætlar að standa vörð um atvinnulífið. Það er til dæmis gert með lækkun fasteignaskatta úr 1,65% í 1,55% á atvinnuhúsnæði. Einnig er mikilvægt að huga að þeim verkefnum sem snúa að nýsköpun og frumkvæði í atvinnusköpun og efla þau ásamt heimavinnslu, smáiðnaði og verslun. Áðurnefnda stefnu þarf að vinna með ferðaþjónustuaðilum og öðrum stofnunum sem vinna í þessum málum á svæðinu en ekki síst íbúum. Í hvernig samfélagi vilja þeir búa?

Með styrkum stoðum í atvinnugreinum sem fyrir eru siglum við að því að breyta aldurssamsetningu svæðisins en með ferðaþjónustu er þjónustustig svæðisins styrkt enn frekar í formi veitingastaða, kaffihúsa og ýmiskonar afþreyingu sem enn frekar stuðlar að því að ungt fólk velji að vera hér áfram og heillar aðra sem vilja flytjast hingað.

Að lokum. Samfylkingin stendur fyrir jafnrétti, jöfn tækifæri og  almannahag fyrst og fremst. Áherslumál okkar taka mið af þeirri stefnu og við munum ávallt standa upprétt í baráttunni fyrir þeim gildum sem við trúum á  og teljum samfélaginu fyrir bestu.  Stefnumál okkar í heild sinni má finna á vefsíðu okkar, https://xsnordurthing.is og í bæklingi sem fór dreifingu fyrr í vikunni.

Begin typing your search above and press enter to search. Press ESC to cancel.

Back To Top