Hraust geð gerir hraust samfélag

Heilbrigði líkama og sálar finnum við að er mörgum hugleikið þessi misserin. Geðheilbrigði er málaflokkur sem verður æ fyrirferðameiri og skal engan undra. Umræðan hefur opnast, til lukkunnar, og geðheilbrigðismál vonandi hætt að mara í hálfu kafi og komin alveg upp á yfirborðið . Við viljum deila með ykkur vangaveltum okkar um geðheilsbrigðismál barna og unglinga í Norðurþingi, en við eins og fleiri, höfum áhyggur af því hvernig málin standa og langar að beita okkur í að koma þessum málaflokki í farveg til framtíðar.

              Það dylst sjálfsagt engum að það er sífellt meira áberandi að börn og ungmenni ráða illa við lífið. Lífið getur líka reynst ansi flókið. Við upplifum það báðar í gegnum okkar börn. Það er okkar að hjálpa þeim að ná fótfestu, og þetta kallar á samstillt átak. Eins og staðan er í dag er aukin þörf, jafnt hér í Norðurþingi sem á landinu öllu, á úrræðum fyrir börn og unglinga sem eru í slíkum vanda. Vissulega sinna sálfræðingar skólaþjónustunnar greiningum og gera það vel, því megum við ekki líta framhjá, eða gera lítið úr. Þeirra starf er mikið og gott. Það sem skortir kannski frekar er að finna markvissar leiðir til koma til móts við börnin, og ekki síður fjölskyldur þeirra enda er álagið sem vanlíðan barns hefur á fjölskyldulífið allt gífurlegt og afleidd áhrif á samfélagið meiri en við ætlum í fyrstu.

              Samvinnu teljum við vera lykilatriði – samvinnu ríkis og sveitarfélags, samvinnu skóla og fjölskyldna, samvinnu ólíkra sviða í samfélaginu. Þarna gæti komið til þverfaglegt teymi til að móta stefnu og skapa heildræna framtíðarsýn í málaflokknum. Það er alveg grundvallaratriði að slíkt teymi hafi þá tækifæri og svigrúm til að beita sér, en verði ekki bara nefnd á pappír sem fljótlega fellur í gleymskunnar dá. Það hljómar einfalt að setja bara sálfræðing inni í skólana, en staðreyndin er því miður sú að þeir liggja ekki á lausu eftir okkar hentugleika, fyrir utan það að slík nálgun hentar alls ekki öllum. Því teljum við mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn og horfa til annarra stétta, svo sem hjúkrunarfræðinga og fjölskylduráðgjafa. Úrræðin þurfa að vera fjölbreytt og vinna þarf í samráði við skólayfirvöld, því það er jú í skólanum sem börnin dvelja stóran hluta dagins. Einnig er það okkar einlæg von að hægt sé að nýta betur þann mikla mannauð sem við nú þegar höfum í skólunum og víðar hjá sveitarfélaginu. Nú þegar er verið að vinna virkilega gott starf með jákvæðan aga og því starfi viljum við að sé lagt enn frekar lið. Jákvæður agi er frábært tæki og mikið forvarnargildi sem liggur í þeirri stefnu. Því þurfum við að hlúa að. Við teljum það hlutverk sveitarfélagsins að hafa milligöngu í að starta verkefni sem þessu og halda því gangandi og okkar sannfærðing er sú að það komi öllu samfélaginu til góðs.

              Nokkur helstu baráttumál Samfylkingarinnar og annars félagshyggjufólks eru í takt við slíkt átak í geðheilbrigðismálum. Uppbygging Túns sem fjölbreytta félagsmiðstöð með aðstöðu til fjölbreyttar flóru tómstunda yrði góður vettvangur til að hjálpa krökkum að finna fjölina sína. Hækkun frístundastyrks og efling afreksstarfs í íþróttum, auk fjölbreyttra útivistarmöguleika er líka hluti af átaki í geðheilbrigðismálum. Þetta helst allt í hendur. Hugur og andi.  

Við viljum koma því að í lokin að við höfum ekki töfralausnir á takteinum, og sennilega er þær hvergi að finna. Hér hafa einungis verið reifaðar hugrenningar okkar í þessum málaflokki. Við trúum því einlægt að komist þessi mál í farveg til framtíðar með þverfaglegri samvinnu muni það gera Norðurþing að enn betra sveitarfélagi. Ennfremur finnst okkur þessi málaflokkur ekki vera vettvangur fyrir pólitísk þrætuepli, við finnum fyrir því þvert á öll framboð til kosninga nú að mikill vilji er til góðra verka. Gerum þetta saman. Gerum þetta vel. Gerum þetta.

 Ágústa Tryggvadóttir 4. sæti og Jóna Björk Gunnarsdóttir 5. sæti S-listans

 

Begin typing your search above and press enter to search. Press ESC to cancel.

Back To Top