Hraust Samfélag – Útivist og hreyfing- Uppbygging við Reyðárhnjúk

Áherslumál okkar Samfylkingarfólks fyrir komandi kosningar leggjum við fram undir kjörorðinu „Hraust Samfélag“ .  Samfélag þar sem jafnrétti, jafnt aðgengi og möguleikar til leiks og starfa fara ekki eftir efnahag eða fjölskylduaðstæðum heldur standi samfélagið vörð um að allir ungir sem aldnir hafa fjölbreytt og góð tækifæri til að vaxa og þroskast. Íþróttir, útivist og  æskulýðsmál skipa stóran sess í okkar áherslum. Norðurþing hefur á undanförnum árum dregist verulega aftur úr öðrum sambærilegum sveitarfélögum þegar kemur að framlögum til þessa mikilvæga málaflokks og þar verðum við að gera betur. Aðaláherslumál okkar í þessum málaflokki eru eftirfarandi.

Við ætlum í stórfellda uppbyggingu við útivistarsvæðið við Höskuldsvatn. Færa skíðalyftuna, hanna og byrja á framkvæmdum. Sú var tíðin að yfir vetrartímann iðaði skíðasvæðið okkar við rætur Húsavíkurfjalls af lífi og leik. Skíðaíþróttin er einstaklega fjölskylduvæn íþrótt  þar sem ungir sem aldnir eiga saman góðar stundir við skemmtilega og heilbrigða útivist. Aðstæður hafa skapast þannig að löngu tímabært er að færa skíðasvæði okkar Húsvíkinga hærra til fjalla. Við styðjum heilshugar við þau áform að byggja upp útivistarparadís við Reyðarárhnjúk. Þar eru allar aðstæður frábærar til skíðaiðkunnar og við munum leggja okkar af mörkum til að nauðsynlegar framkvæmdir gangi hratt og vel fyrir sig í kjölfar skipulags svæðisins til vetraríþrótta  og annarrar útivistar. Möguleikar svæðisins til   ferðaþjónustutengdrar starfsemi eru einnig miklir og  við viljum hafa samráð við ferðaþjónustuaðila  um margvíslega nýtingu  til útivistar og skipulagðrar atvinnustarfsemi  jafnt sumar sem vetur. Reykjaheiðin og svæðið  sem afmarkast af Gjástykki að austan og Mývatni að sunnan bíður upp á frábæra og fjölbreytta möguleika fyrir göngu, hesta og hjólreiðafólk og með uppbyggingu á góðri aðstöðu við Reiðarárhnjúk fyrir slíka hópa getur þetta svæði orðið að einstakri útivistarparadís allan ársins hring. Í þessu samhengi munum við leggja áherslu á að bæta gönguleiðir,  reiðleiðir  og hjólaleiðir í nágrenni þéttbýlis og vinna að því að  leiðir og stígar fyrir göngu, hesta og hjólafólk  í sveitarfélaginu öllu verði settir inn í aðalskipulag  í góðri sátt við landeigendur, félagasamtök og umhverfið.

 

Við ætlum að búa til sjóð fyrir afreksíþróttamenn sem verðlaunar afburðaframmistöðu en er ekki bundið við landsliðsþátttöku. Þaðp er mikilvægt að unga fólkið sjái möguleikann á að halda hér áfram í skóla en geta samt keppt að afburðaárangri í íþróttum.

Íþróttafélagið Völsungur er langstærsta íþróttafélag sveitarfélagsins og heldur úti öflugu afreksstarfi með liðum í meistaraflokkum í boltaíþróttum og einnig öflugu starfi í einstaklingsíþróttum.  Það er mikilvægt að styðja myndarlega við bakið á ungu afreksfólki og því grasrótarstarfi sem fer fram á bak við tjöldin .Íþróttafólk sem keppir undir merkjum Völsungs á efsta stigi sinna íþrótta eru flottir fulltrúar samfélagsins og vekja athygli og jákvætt umtal hvar sem þau koma. Góður árangur á landsvísu ber vott um að vel sé að málum staðið, styrkir samfélagið, eflir samhug  og eykur líkur á að ungt íþróttafólk klári sitt framhaldsskólanám í heimabyggð. Öflugt afreksstarf og góður árangur á efsta stigi hefur mikil og hvetjandi áhrif á áhuga barna og unglinga á að stunda íþróttir og almenna hreyfingu.   Samfylkingin mun legga til að afreksstarf íþróttafélaga verði styrkt sérstaklega með beinum fjárframlögum og samráð verði haft við þá aðila sem þegar halda úti slíku starfi um framkvæmd þessa stuðnings.

Börn og unglingar. Við munum leggja til að frístundastyrkur til barna og unglinga verði hækkaður í skrefum og að  á kjörtímabilinu verði Norðurþing  á pari við önnur sambærileg sveitarfélög hvað þetta mikilvæga mál varðar.   Frístundastyrkur er góð  leið til að jafna aðgengi barna og unglinga óháð fjölskyldustöðu til að sinna hollum  áhugamálum tengdum íþróttum, listum eða annarri frístundastarfsemi sem hverjum og einum stendur næst.

Að lokum. Samfylkingin stendur fyrir jafnrétti, jöfn tækifæri og  almannahag fyrst og fremst. Áherslumál okkar taka mið af þeirri stefnu og við munum ávallt standa upprétt í baráttunni fyrir þeim gildum sem við trúum á  og teljum samfélaginu fyrir bestu.  Stefnumál okkar í heild sinni má finna á vefsíðu okkar, https://xs.nordurthing.is / og í bæklingi sem senn fer í dreifingu.

 

 

 

 

 

Begin typing your search above and press enter to search. Press ESC to cancel.

Back To Top